• Before-Svuntuaðgerð
  After-Svuntuaðgerð
  FyrirSvuntuaðgerðEftir
 • Before-Svuntuaðgerð hægri hlið
  After-Svuntuaðgerð hægri hlið
  FyrirSvuntuaðgerð hægri hliðEftir
 • Before-Svuntuaðgerð vinstri hlið
  After-Svuntuaðgerð vinstri hlið
  FyrirSvuntuaðgerð vinstri hliðEftir

Hvers vegna svuntuaðgerð?

Þegar fólk léttist mikið getur húðin verið lengi að jafna sig. Stundum verður þyngdartapið það mikið að gera þarf aðgerð til þess að minnka umfang húðarinnar á eftir.

Algengt er að gera aðgerðir á kvið – svokallaðar svuntuaðgerðir. Þær felast í því að fjarlægja umframhúð eða fellingar sem myndast. Þessar aðgerðir eru einnig gerðar annars staðar á líkamanum svo sem á upphaldleggjum og fótleggjum.

Hvernig virkar aðgerðin?

Af ýmsum ástæðum missir húðin teygjanleika sinn og getur virkað slöpp og hangandi. Þegar þetta gerist á kviðnum þá líkist húðfellingin sem hangir framan á kviðnum svuntu og þessvegna köllum við aðgerðina ‘svuntuaðgerð’.

Algengast er að þessar breytingar verði á líkamanum eftir meðgöngu eða eftir mikið þyngdartap.

Húðfellinguna er oft hægt að lagfæra með fitusogi, lítilli svuntuaðgerð (en þá er gerður svokallaður bíkíniskurður og aukahúðin fjarlægð) eða með stórri svuntuaðgerð.

Þegar um stóra svuntuaðgerð er að ræða þá er gerður bikiniskurður og undirlag húðarinnar er losað frá kviðvegg upp að bringubeini.

Síðan er strekkt á húðinni, aukahúð fjarlægð og nafli færður í eðlilega stöðu.

Samhliða svuntuaðgerð er oft framkvæmt fitusog.

Til að örið verði sem minnst áberandi er mælt með því að nota límbandsplástur á það í 6 mánuði eftir aðgerð. Ef húðin verður rauð og þolir ekki límbandsplásturinn má nota silikon krem í staðinn. Ef lím verður eftir á húðinni eftir límbandsplásturinn geturðu fjarlægt það með hreinsuðu bensíni sem fæst í apóteki. Límbandsplásturinn sem notaður er kemur frá 3M og kallast Micropore. Hann fæst einnig í apóteki.

Hvernig fer svuntuaðgerð fram?

Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur á bilinu 2-3 klukkustundir. Gerður er ‘bikinískurður’ sem nær að mjaðmarkömbum við stóra svuntu en styttra við litla.

Ef þörf krefur er strekkt á kviðveggnum líka. Þar sem yfirborð sársins er mjög stórt myndast sáravökvi sem þarf að geta runnið frá sárinu. Til þess eru notuð dren sem eru þannig að 1-2 örsmáar slöngur eru látnar liggja frá sárinu í allt að eina viku eftir aðgerð.

Eftir aðgerð

Ef líkaminn heldur áfram að framleiða sáravökva eftir að drenin eru fjarlægð er hægt að stinga á sárið og fjarlægja sáravökvann til að flýta fyrir að það grói. Verkir eftir aðgerð eru mjög persónubundnir, bæði hversu miklir þeir eru og í hve langan tíma þeir vara.

Venjulega er þörf á sterkum verkjalyfjum (Parkódin eða Parkódin forte) í 1-3 daga, eftir það geta flestir skipt yfir í venjulegt parasetamól (Panodíl eða Paratabs) og tekið i 2-3 daga til viðbótar.

Bataferlið

Taktu því rólega, sérstaklega fyrstu 2-3 dagana eftir aðgerð. Eftir það mátt þú og átt að hreyfa þig upp að sársaukaþröskuldi en þarft þó  að passa að teygja ekki um of á kviðnum.

Kviðveggurinn kemur til með að vera svolítið strekktur í byrjun sem gerir það að verkum að þægilegra er að ganga svolítið hokinn fyrstu dagana.

Hægt er að kaupa stuðningsbuxur/belti í apóteki og best að vera búinn að því fyrir aðgerð. Þessi fatnaður fæst í apótekum og þar til gerðum sérverslunum.

Aðrar aðgerðir: