Andlitslyfting

Andlitslyfting

Andlitslyfting

HVERS VEGNA ANDLITSLYFTING?

Með aldrinum missir húðin teygjanleika sinn, undirhúðin og fitan undir húðinni breytist þannig að húðin verður slöpp. Hrukkur myndast og andlitið ásamt öðrum líkamshlutum eldist. Þar sem bandvefslag undir húð kringum augu og í andliti er mjög laust, verður þetta áberandi á þessum stöðum. Reykingar og sól hafa mikil og neikvæð áhrif á þetta ferli.

Andlitslyfting er stór aðgerð, sem strekkir á húð og undirhúð andlits og háls sem verður til þess að húðin verður sléttari og minna um hrukkur. Athugið að ennislyfting og augnloka aðgerðir eru sér aðgerðir og ekki er fjallað um þær hér.

Reykingar minnka mjög blóðflæði til húðarinnar. Því á skjólstæðingur að hætta að reykja, helst 6 vikum fyrir aðgerð. Annars eykst hættan á sýkingu og drepi í húðinni.

HVERNIG FER AÐGERÐIN FRAM?

Aðgerðin er gerð á stofu, með svæfingu og tekur 3-4 klukkustundir. Skurðurinn liggur kringum eyrað, upp u.þ.b. 2-3 cm í hársvörðinn og bak við eyrað aftur í hársvörðinn og niður að hálsi í hársverðinum. Ef þörf er á að strekkja á hálsvöðvum líka þarf að leggja lítinn skurð undir hökuna. Eftir aðgerðina eru lagðar á þrýstingsumbúðir sem teknar eru af daginn eftir.

EFTIR AÐGERÐ

Eftir aðgerð verður þú hjá okkur í nokkrar klukkustundir. Verkir eru vægir við andlitslyftingu þrátt fyrir að þetta sé stór aðgerð. Þú færð verkjalyf eftir þörfum. Vegna þess að bandvefur húðar í andliti er svo mjúkur, bólgnar andlitið töluvert upp. Ef bólgan kemur skyndilega er hugsanlega blæðing undir húðinni sem þarf að stoppa. Það þarf því einstaka sinnum að opna aftur, fjarlægja blóðköggul og stöðva blæðinguna. Ef þetta gerist, er það á fyrstu 6-12 klst. eftir aðgerð.

BATAFERLI

Þegar heim er komið skaltu taka því rólega, þú mátt ekki reyna á þig.

Ekki beygja þig fram til að klæða þig í skóna, ekki lyfta þungu.
Hafðu hátt undir höfðinu þegar þú liggur.
Liggðu með kalda bakstra á andlitinu.
Settu bakstra á oft yfir daginn.
Farðu í sturtu eins og venjulega og láttu rólega vatnsbunu skola andlitið.
Ekki nudda andlitið með höndum eða handklæði á eftir.
Áreynsla eykur blæðingarhættu og veldur því að þú verður mikið lengur að ná þér. Mar og bólga verða lengur að hverfa og einnig getur skurðurinn opnast.

Næstu dagar: Bólgan getur aukist fyrstu þrjá dagana en eftir það fer hún minnkandi.

Krem eða aðrar snyrtivörur má ekki nota fyrstu tíu dagana eftir aðgerð.
Ekki vera úti í sól að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar.
Ekki stunda neinar íþróttir, æfingar, hlaup eða skokk eða annað sem þú svitnar við í sex vikur eftir aðgerð.
Gefðu líkamanum tíma til að græða sárin